South River Band var stofnuð haustið 2000. Sveitin var í upphafi tónlistarklúbbur frænda og sveitunga frá lítilli byggð við norðanverðan Ólafsfjörð er nefnist Kleifar.
Sveitin hefur starfað með hléum alla tíð síðan, en tveir af stofnmeðlimum hafa þó horfið yfir móðuna miklu. Á tímabilinu hefur sveitin gefið út sex hljómplötur, haldið fjöldamarga tónleika og meðal annars komið fram tvisvar á tónlistarhátíðum í Skandinavíu.
Lagavalið er heimshornatónlist með afskaplega breiðri skírskotun, polkar, hambóar, sígaunalög og sveitasöngvar. Einnig sambatónlist og jafnvel einn og einn blús. Tónlistin er að stórum hluta frumsamin og allir textar eru frumsamdir og á íslensku.