Á nýjustu plötu South River Band – Sirkus – leika eftirtaldir stofnfélagar hljómsveitarinnar.
Kormákur Þráinn Bragason

Kormákur Þráinn er nú að ljúka sínu síðasta ári sem „kúlturskólastjóri“ og kennari í Norður – Noregi og þá væntanlegur heim. Hann hefur verið meðlimur South River Band frá upphafi en einnig með hljómsveitinni Gæðablóði, o.fl hljómsveitum. Kormákur Þráinn segir þannig frá sjálfum sér:
Ég er fæddur á Akureyri skömmu eftir miðja síðustu öld og eyddi fyrstu æviárunum í Þorpinu utan Glerár. Á þriðja aldursári flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og ég man fátt úr Skaftahlíðinni annað en hundinn Kol en við vorum um það bil í andlitshæð hvor við annan á þeim árum. Þá lá leiðin í Kópavog þar sem fótbolti átti hug minn allan meðan ég fylgdist með
Ríó Tríóinu verða til í gegnum Óla bróður. Þegar Óli var í tónlistarskólanum var hann eitthvað að föndra við flautuleik en missti áhugann svo að ég sá tækifæri á að komast yfir flautuna. Ég lærði fyrst á þverflautu í Tónlistarskóla Kópavogs hjá Halldóri Pálssyni og Bernard Wilkinson 1970 – 76 en eftir menntaskólann fór ég til leiklistarnáms í Svíþjóð og síðar til Noregs. Á háskólaárunum í Noregi spilaði ég með skólafélögunum og eyddum við talsverðum tíma sem götumússikantar í Ósló og víðar til að drýgja tekjurnar. 1980 stofnaði ég í Svíþjóð ásamt dönskum leiklistarpedagog Jesper Mikkelsen o.fl. leiklistarhópinn Fredskaravanen, sem ferðaðist með götu- og tónlistarleikhús á Norðurlöndum í tvö sumur. 1984-1990 starfaði ég m.a. sem tónlistarkennari í Ólafsfirði og lék þá með danshljómsveitinni Box um tíma. Þá tók ég þátt í að skipuleggja Blue North tónlistarhátíðarnar í Ólafsfirði ásmt fleiri tónlistarviðburðum með Þúsund Þjölum ehf.
Ég hef í gegnum árin talsvert fengist við kvikmyndagerð bæði á Íslandi og í Svíþjóð enda menntaður í leikhúsfræðum við Óslóarháskóla (1980 – 83) og kvikmyndafræði í Stokkhólmsháskóla (1990 – 96). Samhliða kvikmyndafræðinámi stundaði ég nám í kvikmyndagerð í Stockholms filmskola (1990 – 92) og á einnig að baki nám í mannfræði við HÍ. Frá 1996 hefur ég einkum starfað sem kennari, reyndar oft fyrir þann tíma líka. Eftir að við komum SRB á laggirnar fór ég aftur að huga að textagerð og týndi fram ýmsan skúffumat sem ég sýndi strákunum og fór jafnvel að semja lag og lag, sem þeim þótti nothæft. Gítarspilið lærði ég fyrst hjá vini mínum í Noregi, sem var mest til gamans gert þannig að nú má ég hafa mig allan við ef ég á að halda í við strákana.
Matthías Stefánsson

Matthías Stefánsson nam fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Fyrstu tíu árin hjá Lilju Hjaltadóttur og síðasta árið hjá Önnu Podhajska ásamt því að sækja tíma til Guðnýjar Guðmundsdóttur. Matthías tók 7. stig í fiðluleik frá Akureyri en
lauk svo 8. stiginu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2002, undir handleiðslu Mark
Reedmann ásamt því að stunda nám við gítarleik í Tónlistarskóla F.Í.H.
Matthías hefur verið starfandi tónlistarmaður síðan 2002 ásamt því að kenna á fiðlu og gítar. Hann hefur spilað á yfir 100 geisladiskum og starfað með flestum þekktari tónlistarmönnum Íslands og verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum. Hann hefur tekið þátt í fjölda tónleikauppfærslna hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku Óperunni, Íslenska dansflokknum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Grétar Ingi Grétarsson

Grétar Ingi Grétarsson er lögfræðingur og býr og starfar í Kaupmannahöfn.
Grétar er vel tengdur Kleifum og Syðri-Á. Í fyrsta lagi er hann giftur stúlku frá Kleifum og bróðir Grétars er svo giftur systur Helga Þór harmonikuleikara. Grétar Ingi segir þannig frá sjálfum sér:
Ég lærði á baritonhorn hjá Þorkeli Jóelssyni og Lárusi Sveinssyni í 10 ár, frá 1984-1994. Ég sat í Tónlistarskóla FÍH á árunum 1994-1996 og lærði þar meðal annars á rafmagnsbassa hjá Bjarna Sveinbjörnssyni. Ég varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund árið 1994. Settist svo á skólabekk í Háskóla Íslands og tók embættispróf í lögfræði 2001 og síðar meistarapróf í alþjóðlegum hugverkarrétti við Max Planck Institute í München, Þýskalandi.
Hljómsveitaferillinn er þannig að ég spilaði á baritonhorn í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar um árabil, frá 1984-1995. Ég lék einnig á baritonhorn í úrvalssveit SÍSL 1992-1995. Poppferillinn byrjaði árið 1988 í Mosfellsbæ með hljómsveit sem kölluð var Gervileikar. Árið 1991 gekk ég til liðs við stórhljómsveitina Sirkus Babalú sem varð í Menntaskólanum við Sund og fóstraði marga snillinga sem síðar hafa kryddað íslenska tónlistarflóru. Í apríl 2001 var ég svo innlimaður í South River Band. Í dag er ég einnig stoltur meðlimur í Hafnarbræðrum, Karlakór Íslendinga í Kaupmannahöfn.
Helgi Þór Ingason

Helgi Þór er véla- og iðnaðarverkfræðingur og prófessor við Háskólann í Reykjavík. Helgi Þór segir þannig frá sjálfum sér:
Harmoniku eignaðist ég í fyrsta sinn síðsumars 2002 en frá barnsaldri hlustaði ég og horfði á Nonna frænda minn á Syðri-Á þenja nikkuna sína. Annars er ég píanisti að upplagi. Lærði að spila á píanó frá níu ára aldri, hjá Jóni Stefánssyni söngstjóra, í Tónskóla Sigursveins og svo nokkrum árum síðar í Jassdeild FÍH. Þar stofnaði ég jasshljómsveitina Jassgauka ásamt nokkrum skólafélögum til að spila hefðbundna jasstónlist og hljómsveitin sú kom fram á Gauki á Stöng, Hellinum, Fógetanum og fleiri “pöbbum” á fyrstu þremur upphafsárum slíkra staða í Reykjavík. Ég stundaði klassískt söngnám í Söngskólanum í Reykjavík einn vetur undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og söng í mörg ár með Kór Langholtskirkju og einn vetur með Módettuór Hallgrímskirkju. Ég hef líka sungið með Óperukórnum og tekið þátt í óperuflutningi í Íslensku óperunni.
Tónsmíðar, textasmíðar og útsetningar eru með því allra skemmtilegasta sem ég fæst við. Árið 2013 gaf ég út geisladisk með tónlist sem ég hef samið í gegnum árið og kallaði hann “Gamla hverfið.” Diskurinn var tekinn upp í stofunni minni, ég lék á flygilinn og góðir vinir mínir liðsinntu mér. Ég er einnig þátttakandi í þjóðlagasveitinni Kólgu sem gaf út sinn fyrsta geisladisk 2017.
Ólafur Baldvin Sigurðsson

Ólafur Baldvin er kennari í rafiðngreinum við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann segir þannig frá sjálfum sér:
Ég lauk meistaraprófi í útvarpsvirkjun og rafeindavirkjun og prófi í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands.
Hljóðfæraleikur hefur verið eitt af mínum helstu áhugamálum. Ég lék á gítar með hljómsveitum á Akureyri, m.a. Golíat, Hjólinu og Jamaica. Ég lék líka með hljómsveit Ingimars Eydal um tíma og með hljómsveit Finns Eydal og Helenu.
Þegar South River Band var stofnað árið 2000 lék ég á rafmagnsgítar. Óli Þórðar sá fyrir sér að SRB yrði órafmögnuð hljómsveit og hvatti mig til þess að hefja mandólínleik. Leist mér vel á þessa hugmynd og flutti inn mandólín frá USA og hóf að æfa mig á það.
Ég stofnaði 1995 með nokkrum félögum sönghópinn Uppsiglingu í Keflavík. Við hittumst hálfsmánaðarlega á veturna og syngjum saman lög sem okkur dettur í hug. Í Uppsiglingu leik ég á gítar og mandólin jöfnum höndum. Einnig leik ég með unglingahljómsveitinni Hrókum frá Keflavík sem var stofnuð 1965 og svo syng ég í Drengjabandi Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Einnig komu að gerð hljómplötunnar Sirkus þau:
Ágústa Ósk Óskarsdóttir
Gunnar Hilmarsson
Gunnlaugur Helgason
Erik Qvick
Aðrir sem leikið hafa með South River Band yfir lengri tíma
Einar Sigurðsson
Guðmundur Benediktsson
Gunnar Reynir Þorsteinsson
Jón Kjartan Ingólfsson
Magni Friðrik Gunnarsson