Sagan

Á föstudagskveldi um verslunarmannahelgina árið 2000 áttu nokkrir sveitungar og frændur skemmtilega stund saman í stofunni að Syðri-Á á Kleifum í Ólafsfirði. Söngbók var dregin fram og spilað og sungið heila nótt. Við ákváðum að halda áfram samstarfinu eftir að Kleifamótinu lauk og hljómsveitin South River Band varð til. Við tókum upp vikulegar æfingar þar sem unnið var með tónlist, sem verið hafði í uppáhaldi á Syðri-Á. Samstarfið hefur varað alla tíð síðan með nokkrum hléum en drifkraftur þess var alltaf mikil tónlistarleg ástríða, áhugi, metnaður og traustur vinskapur. Löng er orðin leiðin frá því við glímdum við gamla slagara í stofunni á Syðri-Á sumarið 2000 – til hljómdiskanna með frumsaminni tónlist og textum sem allir fengu lofsamlega dóma. Miðvikudagskvöld voru föst æfingakvöld, oftar en ekki á Urðarstígnum hjá Óla Þórðar, og þá gátu nágrannarnir í Þingholtunum gjarnan heyrt óm af finnskum polkum, sænskum hambóum og ungverskum sígaunalögum. Í þessari hljómsveit sameinuðumst við í ástríðu okkar til tónlistarinnar en það var eitthvað meira sem batt okkur saman. Það var félagsskapurinn, stemningin, vináttan. Þessir vikulegu fundir okkar voru alveg ómissandi, að spjalla saman, hlæja, búa til skemmtilega tónlist og texta, og leika og syngja – okkur sjálfum til ánægju.

Stór skörð hafa verið höggvin í sveitina frá stofnun, því hún hefur þurft að bera til moldar tvo af stofnmeðlimum sínum. Jón Árnason frá Syðri-Á féll frá vorið 2004 á áttræðisaldri. Mikið áfall dundi svo yfir haustið 2010 þegar hljómsveitarstjóranum, Óla Þórðar, var fyrirvaralaust kippt úr samfélaginu á besta aldri, og andaðist hann ári síðar. Við spiluðum án hans um nokkurra mánaða skeið en fljótlega varð ljóst að fráfall Óla var of mikil blóðtaka og samstarfið var lagt á ís um stund. Óli Þórðar var góður leiðtogi, frændi og vinur. Alltaf var hann ljúfur og alþýðlegur – þrátt fyrir alla sína frægð. Og það var alltaf líf og fjör í kringum hann, á æfingum, á tónleikum, í afmælisboðum eða ættarmótum á Kleifunum, eða bara þegar hann spilaði á gítarinn sinn í stofunni á Syðri-Á, þangað sem okkur fannst best að sækja innblástur. Við kölluðum Óla “maestro” okkar í milli. Þegar hann var í stuði voru okkur allir vegir færir. Hann var feiknarlega skemmtilegur hryngítarleikari og það var engin þörf á slagverki þegar hann var á gítarnum. Hann samdi líka falleg lög og var alltaf óeigingjarn og hvetjandi í samstarfi og gjafmildur á góð ráð og stuðning.

Sumarið 2017 hittumst við nokkrir saman og hlustuðum á gamlar upptökur af æfingum. Okkur varð strax ljóst að á þessum upptökum leyndist fjársjóður, mörg stórfín stef sem Óli og fleiri í bandinu höfðu samið, en aldrei höfðu verið flutt opinberlega. Neistinn kviknaði á ný og við ákváðum að hittast og þróa sjöttu plötuna, til heiðurs okkar fallna meistara.