
Við erum flestir frændur og sveitungar frá lítilli byggð við norðanverðan Ólafsfjörð sem nefnist Kleifar. Um miðja 20. öld var þar lítið samfélag með blómlegt líf, margir íbúar sem stunduðu landbúnað og sjávarútveg og styttu sér stundir með sögulestri, dansi og leik og síðast en ekki síst söng og hljóðfæraslætti. Afkomendur þess fólks sem bjó á Kleifum eiga sterk tengsl við staðinn og koma þangað á sumrin og veturna til styttri og lengri dvalar. Þá eru hljóðfærin oft með í för og gömlu söngbækurnar – “þar sem saman koma tveir Kleifamenn, þar er kór,” gæti einhver hafa sagt. Úr þessum jarðvegi sprettur South River Band sem kennd er við einn af bæjunum á Kleifum, Syðri-Á. Þar bjó einmitt félagi okkar Jón Árnason sem þandi harmoniku sína í Ólafsfirði frá því hann var ungur maður og lék stórt hlutverk í hljómsveitinni frá upphafi, uns hann féll frá árið 2004.