Allar stúlkurnar

South River Band

Record Details

Released:
2007
Genre:
Folk

Tracklist

  1. Morgunroðareið -:-- / -:--
  2. Hvar eru öll þín æskuár -:-- / -:--
  3. Fiðrildi á glugga -:-- / -:--
  4. Allar stúlkurnar -:-- / -:--
  5. Ég hlusta á hjartað -:-- / -:--
  6. Aldingarðurinn -:-- / -:--
  7. Hún vill meira -:-- / -:--
  8. Svo gerðist það -:-- / -:--
  9. Bílprófið -:-- / -:--
  10. Aldurhniginn -:-- / -:--
  11. Hanablús -:-- / -:--
  12. Guð og ég -:-- / -:--
  13. Í norðaustan roki -:-- / -:--
  14. Szymon -:-- / -:--

Söngkvöldafélagið gaf út
SRB CD 004 2007

Allar stúlkurnar

Fjórði hljómdiskurinn okkar, Allar stúlkurnar, kom út í október 2007. Hann inniheldur 14 lög, frumsamin og erlend þjóðlög. Textarnir eru frumsamdir og fjalla um spaugilegar hliðar tilverunnar og dauðans alvöru, grín og glens, sorg og sút, og allt þar á milli. Textinn í titillaginu “Allar stúlkurnar” fjallar til dæmis um þá einkennilegu stöðu sögumanns að allar stúlkurnar í bænum vilja eignast hann, allar nema þessi eina sem hann er skotinn í! Í laginu Aldingarðurinn er greint frá atburðum sem áttu sér stað í Eden forðum daga og í laginu Aldurhniginn er fjallað um íslensku hversdagshetjuna sem stritar alla ævi en fær svo heldur hranalega meðferð á kvöldi lífsins þegar hann ætlar að slappa af og hafa það huggulegt í ellinni. Það má því segja að umfjöllunarefnið sé lífið sjálft hin mörgu litbrigði þess.

Við vorum nokkuð lengi að þróa þetta efni og taka upp, fyrstu lögin voru tilbúin á árinu 2006 og þá byrjuðum við að eiga við upptökur. Mesta vinnan fór þó fram 2007 og aðferðin var svipuð og þegar við unnum “Maður gæti beðið um betra veður.” Matti annaðist upptökstjórn og hljóðblöndun og upptökustaðir voru heima hjá honum á Snorrabrautinni og á Urðarstígnum hjá Óla Þórðar. Hljóðfæraskipan var svipuð og fyrr en þó bregður fyrir rafgítar í nokkrum lögum og eins er banjóið áberandi. Farin var mjög óhefðbundin leið í slagverki að þessu sinni því við fundum út að litla timburhúsið hans Óla Þórðar í Þingholtunum er í raun eitt risastórt slagverkssett. Við lömdum
taktinn með því að stappa í gólf, berja í stóla, veggi og borð. Húsið lék á reiðiskjálfi og vegfarendur hafa sjálfsagt velt vöngum yfir þeim ósköpum sem þarna áttu sér stað. En útkoman er vel ásættanleg og gamla timburhúsið sómir sér vel í félagsskap strengja- og blásturshljóðfæra South River Band.

Laugardaginn 8. desember, 2007 – Tónlist
TÓNLIST – Íslenskur geisladiskur
Vönduð og skemmtileg plata
South River Band – Allar stúlkurnar stjörnugjöf: ****

SOUTH River Band leikur sérlega vandaða þjóðlagatónlist sem er að miklu leyti undir austurevrópskum áhrifum. Á plötu þeirra Allar stúlkurnar má bæði finna frumsamin lög auk þjóðlaga úr ýmsum áttum.

Lögin eru öll full af lífi og sál og á þar textahöfundurinn Kormákur Bragason stóran hlut að máli. Hlustandinn er dreginn með í ferðalag um lendur ástar og örlaga þar sem staldrað er við einlægar og ljúfsárar minningar. Aðrir textar eru spaugsamar vísur um hegðun landans, kvennafar auk hinna bráðnauðsynlegu drykkjuvísna. Helgi Þór Ingason á einnig mjög góða texta – skemmtilegar frásagnir af ástum og sveitalífi.

Það er að sjálfsögðu umfjöllunarefni að Geir H. Haarde forsætisráðherra skuli syngja á plötunni en hann kemur fram í laginu „Ég hlusta á hjartað“ sem er ágætlega þýdd ábreiða af lagi Johnnys Cash „Walk the Line“. Geir kom mér talsvert á óvart því hann er mun lipurri söngvari en ég hafði gert mér í hugarlund. Skemmtileg viðbót það.

Því miður get ég ekki kallaði forsætisráðherra vorn gullmola plötunnar því það hlýtur að vera lag Ólafs Þórðarsonar tileinkað Szymon heitnum Kuran sem nefnist einfaldlega „Szymon“. Lagið er einkar fögur smíð – angurvær og blíð. „Szymon“ er virðuleg og viðeigandi kveðja til eftirtektarverðs tónlistarmanns.

Meðlimir South River Band eru allir stjörnur þessarar plötu, lagasmíðar þeirra eru afskaplega góðar auk þess sem þeir hafa gott nef fyrir tökulögum. Það er þó hljóðfæraleikur þeirra sem skarar fram úr, hvergi er feilnóta slegin og er flutningurinn fullur af sál, frá fyrsta lagi til hins síðasta.

Helga Þórey Jónsdóttir Morgunblaðið