Söngkvöldafélagið gaf út
SRB CD 003 2005
Bacalao
Sólþurrkuð þjóðlög – Morgunblaðið 4. ágúst 2005
Bacalao, hljómplata South River Band, sem er skipað er þeim Einari Sigurðssyni bassaleikara, Helga Þór Ingasyni harmonikkuleikara, Kormáki Bragasyni hryngítarleikara, Ólafi Sigurðssyni mandólínleikara, Ólafi Þórðarsyni hryngítarleikara og Matthíasi Stefánssyni fiðluleikara. Lög á plötunni eru eftir ýmsa erlenda höfunda. Hún var tekin upp í hljóðveri Ríkisútvarpsins af þeim Páli S. Guðmundssyni og Hirti Svavarssyni, en Matthías Stefánsson annaðist hljóðblöndun. Páll S. Guðmundsson gerði frumeintak. Söngkvöldafélagið gefur út.
Hljómsveit frændanna frá Syðri-Á hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar frá því fyrsta breiðskífan kom út fyrir þremur árum. Mannaskipti hafa verið í sveitinni þó kjarni hennar sé sá sama og forðum, og ólíkt fyrri verkum hennar er ekkert sungið á þeirri plötu sem hér er gerð að umtalsefni og ekkert lag eftir þá sveitarfélaga – öll lög eru eftir erlenda höfunda og sum býsna gömul, jafnvel þjóðlög.
Í umslagi plötunnar er vísað í saltfiskvinnslu á Kleifunum á Ólafsfirði og það tengt plötunni að því leyti að þeir félagar séu að sólþurrka alþýðlega heimshornatónlist eins og hvern annan saltfisk, bacalao. Tengingin er kannski ekki svo ýkja rökrétt, frekar að tengja mætti við nútímann þegar fólk frá ýmsum heimshornum vinnur við saltfisk í sjávarplássum um land allt, hver með sinn þjóðlagaarf en þó svipar hjörtunum saman.
Á Bacalao hafa þeir félagar frá Syðri-Á safnað saman lögum frá Úkraínu, Írlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Spáni og Svíþjóð. Lagavalið er gott, skemmtileg blanda af gamalli og nýlegri tónlist sem þeir matreiða geysivel með lifandi og líflegri spilamennsku og sýna fram á að kjarninn í þjóðlegri tónlist er sá sami þó tungumálið sé ólíkt eða hljóðfæraskipanin – gott lag er alltaf sama góða lagið í hvaða búningi sem það annars er.
Spilamennska hjá þeim félögum er mjög lýðræðisleg ef svo má segja, allir samtaka og hvert hljóðfæri fær sitt pláss. Spilamennska er líka fyrsta flokks, sérstaklega hjá Matthíasi sem fer víða á kostum á fiðlunni, en Helgi Þór á líka fína spretti og reyndar þeir félagar allir, greinilegt að menn eru búnir að spila þessi lög fram og aftur og þekkja á þeim alla kima. Það eina sem setja má út á er að fulllítil spenna er í spilamennskunni á köflum, þjóðlagatónlist er ekki síst skemmtileg fyrir það að menn eru ekki alltaf að spila hreint og rétt. Tempó mættu líka vera hraðari í sumum laganna fyrir minn smekk, til að mynda í Dramm fyrir dagmál og Sveitungi snýr aftur, en upphafið á því lagi er reyndar einkar vel heppnað. Hörgadansinn er líka vel spilaður með skemmtilegum samsöng fiðlu og harmonikku og líka eru lokalög plötunnar, Kampakátir og Á blístri af berjum vel flutt, sérstaklega að fyrrnefnda sem Matthías spilar listavel, en síðarnefnda lagið finnst mér það besta á skífunni.
Árni Matthíasson
Hefðbundin og skemmtileg þjóðlagatónlist Fréttablaðið 5. ágúst 2005
Nýr diskur, Bacalao, með hjómsveitinni South River Band kom út í byrjun júlí. Hljómsveitina skipa þeir Matthías Stefánsson, Helgi Þór Ingason, Ólafur Sigurðsson, Kormákur Bragason, Ólafur Þórðarson og Einar Sigurðsson.
Á disknum eru þrettán lög frá ýmsum löndum og hengja meðlimir sveitarinnar merkimiðann alþýðleg heimshornatónlist“ á lög plötunnar.
Þar er að finna tónlist frá Úkraínu, Írlandi, Spáni og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Útsetningar laganna á plötunni eru stílhreinar og hefðbundnar, þau er stutt en flest hver skemmtileg og snerta einhverjar taugar sem þjóðlagatónlistin hefur, að því er virðist, ein svo greiðan aðgang að. Upphafslag disksins er írska þjóðlagið Whiskey Before Breakfast eða Dramm fyrir Dagmál og er það ágætis upphaf að skemmtilegri og tregafullri plötu því sum lögin á plötunni eru þannig að maður gæti bæði hlegið og grátið yfir þeim. Það gerir tilfinningin í þeim, hækkanirnar og hraðabreytingarnar, tónlistin fer frá því að vera hæg og tilþrifalítil upp í að vera hröð og tilfinningarík. Sveitinni tekst hvað best til í þjóðlaginu Brúðkaupsvals frá Úkraínu sem hefur í sér hinn ljúfsára trega sem er oft einkennandi fyrir þjóðlagatónlist frá Austur-Evrópu. Laginu er haldið uppi af fiðluleik Matthíasar Stefánssonar, sem spilar áberandi rullu í mörgum lögum plötunnar, og er laglínan í því falleg. Einnig ber að geta Kveðjustundarinnar eða La Partida eftir Alvarez, Fermin Maria, írska þjóðlagsins Á blístri af berjum og úkraínska þjóðlagsins Mánaskin sem nánast
ærir mann því það er svo hratt og æpandi, eiginlega móðursjúkt lag.
Diskurinn í heild sinni er skemmtilegur þótt farnar séu afar troðnar slóðir í útsetningum og flutningi. Ég gæti vel hugsað mér að fara og hlusta á hljómsveitina spila á balli og kannski dilla mér eitthvað og hoppa, jafnvel fá mér nokkra gráa og hafa gaman, því þrátt fyrir tregann er þetta tónlist gleðinnar.
Ingi Freyr Vilhjálmsson
SOUTH RIVER BAND:
BACALAO
NIURSTAÐA: Diskurinn í heild sinni er skemmtilegur þótt farnar séu afar troðnar slóðir í útsetningum og flutningi.