Söngkvöldafélagið gaf út
SRB CD 002 2004
Maður gæti beðið um betra veður
“Maður gæti beðið um betra veður” er heiti þessa disks. Línan er tekin úr texta Kormáks “Vaknaði upp í veröldinni”. Við gerð þessa disks höfðum við það í huga að semja eitthvað sjálfir, kanski meira okkur til skemmtunnar, heldur en þetta yrðu einhver tónverk. Við hófum upptökur í nóvember 2003 í sumarbústað foreldra Grétars Inga. Hljóðritari var Vigfús Ingvarsson. Þetta voru nokkurskonar stemningsupptökur og hófst nú vinnsla á disknum. Tekið var upp og lagfært á ýmsum stöðum eftir þetta s.s. í stofunni heima hjá Óla Þórðar, í Tónskóla Eddu Borg og heima hjá Matta. Platan er öll tekin upp á einn míkróón, sem leigður var hjá Exton. Matti var aðal hljóðritarinn. Þórir Úlvars masteraði og Vilhjálmur Guðjónsson setti lokapunktinn yfir upptökurnar. Umslag og hönnun: Ólafur Þórðarson
Gangrýni úr Morgunblaðinu
TÓNLIST – Íslenskar plötur
Spilagleði við völd
South River Band – Maður gæti beðið um betra veður * * *
South River Band: Grétar Ingi Grétarsson kontrabassi, söngur, Gunnar Reynir Þorsteinsson slagverk/söngur, Helgi Þór Ingason harmonika, söngur, Kormákur Þráinn Bragason gítar/söngur, Matthías Stefánsson fiðla/gítar/banjo, Ólafur Sigurðsson mandólín/söngur, Ólafur Þórðarson gítar/söngur. Allar útsetningar og flest lög eftir liðsmenn South River Band. Útgefandi Söngkvöldafélagið srb.
SUMARIÐ 2002 kom út skemmtileg plata með hljómsveit skipaðri frændum sem allir áttu ættir að rekja til bæjarins Syðri-Ár sem er norðvestan við Ólafsfjörð, í sveitinni Kleifum. Það sem einkenndi þá plötu fyrst og fremst var taumlaus spilagleði og á þessari annarri plötu sveitarinnar er það sama upp á teningnum. Á þessari nýju plötu, annarri plötu sveitarinnar, sem kom út í sumar, er spilagleðin enn við völd, enda er hún skipuð fantafínum spilurum sem klárlega hafa unun og yndi af því að spila saman og syngja alþýðutónlist, hvaðanæva úr heiminum. Ef eitthvað – séu plöturnar á annað borð bornar saman – þá er þessi nýja plata betur heppnuð, því bæði lögin og spilamennskan eru í hærri gæðaflokki, eins og þeir félagar hafi lagt í hana meiri vinnu og ákveðið að fórnað ofurlitlu af fjörinu fyrir vandaðri tónlist. Þar með er ekki sagt að léttleikinn sé eitthvað minni. Þvert á móti er platan uppfull af bráðskemmtilegum lögum, sérstaklega fyrir þá sem gaman hafa af alþýðlegri og dansvænni heimstónlist, áþekkri þeirri sem Spaðar hafa verið að leika.
Þeir Syðri-Ár-menn semja sjálfir flest lög og texta og ferst í það heila prýðilega úr hendi; formin leika í höndunum á þeim, suðrænir dansar, djangódjass, sveitasöngvar, írskir dansar og hressilegir rælar. Innihalda textanna hæfir lögunum. Fjalla um útþrána, eru dagdraumar í norðlægu skammdeginu um suðræna vinda og sól í haga, bóhemalífið og glaum og gleði. Hún gerir sig ekki öll, platan. Þau ganga ekki eins vel upp gáskafyllri lögin; “Hef weri fyrir westan”, “Vaknaði í veröldinni” og “Zansibar”. Soldið klaufaleg lög, húmorinn ekki allt of vel heppnaður.
Lag Ólafs Þórðarsonar við texta Helga Þórs Ingasonar “Bí ba bum” er hins vegar sérdeilis gott og grípandi, lag sem vafalaust er hin besta skemmtun að stíga suðræna sveiflu við á dansleik með sveitinni. Slavneski tregasöngurinn “Ég geng í myrkri” eftir Kormák Bragason, við texta Braga Sigurjónsson, er vel heppnaður og gæti verið eftir þá bræður Jónas og Jón Múla. Sama má segja um áhrifaríkt lag Matthíasar Stefánssonar “Í dögun” við sögulegan og vel heppnaðan texta Kormáks, en tilkoma hins fjölhæfa og bráðsnjalla Matthíasar er mikill fengur fyrir bandið. Þá bera að geta áhugaverðs nýs lags á kúbönskum nótum eftir Ólaf Þórðar við ljóð Jóns Thoroddsens Vorið er komið. Talandi um kúbanskar nótur þá minnir perla plötunnar einna helst á Buena Vista gengið, svo einstök er hún. Það er lokalag plötunnar, einstaklega fallegur og innilegur flutningur Jóns heitins Árnasonar, fyrrum liðsmanns í South River Band og bónda við Syðri-Á, á eigin ljóði “Nú ertu horfin”, við erlent lag.
En burtséð frá því þá er hér á ferð bráðskemmtileg plata sem ætti að gleðja alla þá sem gaman hafa af hressilegri og vel leikinni alþýðutónlist.
Skarphéðinn Guðmundsson