South River Band

South River Band

Record Details

Released:
2002
Genre:
Folk

Tracklist

  1. Dauður í Moskvu -:-- / -:--
  2. Fjörubál -:-- / -:--
  3. Tokyo og Taj Mahal -:-- / -:--
  4. Með sorg í hjarta -:-- / -:--
  5. Næsta vetur -:-- / -:--
  6. Á meðan -:-- / -:--
  7. Nú ertu horfin -:-- / -:--
  8. Karnival í Köben -:-- / -:--
  9. Sjómannavísa kvótakóngsins -:-- / -:--
  10. Skipið er að sökkva -:-- / -:--
  11. Buenos Aires -:-- / -:--
  12. Konsertvals -:-- / -:--
  13. Vögguvísa Hönnu -:-- / -:--
  14. Við hittumst heil -:-- / -:--
Morgunblaðið 29. ágúst 2002
Kankvísir Kleifamenn South River Band
Söngkvöldafélagið
Samnefnd plata South River Band sem er skipað þeim Grétari Inga Grétarssyni (kontra- og rafbassi), Gunnari Reyni Þorsteinssyni (slagverk), Helga Þór Ingasyni (píanó, hljómborð og söngur), Jóni Árnasyni (harmonika og söngur), Kormáki Bragasyni (gítar, flauta, munnharpa og söngur) Ólafi Sigurðssyni (gítar, rafgítar og söngur), Ólafi Þórðarsyni (gítar og söngur) og Þorvarði Davíð Ólafssyni (fiðla og söngur). Lög eftir meðlimi, einnig eru hér erlend lög eftir t.d. Parker/Charles og Buck Owens og auk þess eru nokkur lög eftir óþekkta höfunda. Textar eftir meðlimi. Hljóðupptaka var í höndum Magnúsar Kjartanssonar, Vilhjálms Guðjónssonar og Péturs Hjaltested. Um verkstjórn sá Ólafur Þórðarson en allar útsetningar eru sveitarinnar.
Þar kom að því að South River Band festi glaum sinn og gleði á plast. Nafn sveitarinnar gefur helst til kynna að hér seú á ferð lífsglaðir sveitamenn frá Suðurríkjum Bandaríkjanna, með banjó og þvottabretti undir höndum. En svo er ekki. Nafnið er engilsaxneskur útúrsnúningur á heimaslóðum meðlima, en allir eiga þeir á einn hátt eða annan ætt sína að rekja til byggðar sem liggur norðvestan við Ólafsfjörð, og nefnist Kleifar en þar stendur víst bærinn Syðri-Á, hvaðan nafnið er komið. Þetta kemur að hluta fram í bæklingi plötunnar sem er val að merkja smekklegur í hönnun; textar fylgja ásamt nauðsynlegustu upplýsingum og grafísk vinna er með ágætum. Þeir félagar í South River Band takast á við ýmsa stíla hér og gera það bara nokkurn veginn skammlaust. Meginuppistaðan er íslensk/skandinavísk þjóðlaga- eður alþýðutónlist ef svo mætti segja en einnig bregður sveitin fyrir sig slavneskum stemmum, valsi og suðrænum söngvum svo eitthvað sé nefnt. Eins og fram kemur í téðum bæklingi hafa þeir frændur og bræður hist reglulega í áratugi og þá slegið upp tónlistarveislu, sjálfum sér og öðrum til yndisauka.
Ekki er það því atvinnulegur metnaður sem hér ræður ferð heldur miklu frekar ástríða til tónlistarinnar. Í raun er því best að hlusta með því hugarfari að maður sé staddur á skemmtun hjá þeim félögum og taka þessu svona hæfilega alvarlega. Menn eru hér misjafnlega færir á hljóðfærin, eins og gengur, enda enginn hér sem hefur lifibrauð sitt af hljóðfæraslætti. Diskurinn rennur þó dægiljúflega og áreynslulaust í gegn og Fljótabandið í raun færara en meðlimir gefa sjálfir í skyn. Helst að upptökuhljómurinn sé helst til mottulegur og breiði ögn yfir kraftinn og fjörið sem einkennir sum lögin. Söngmenn eru þeir misjafnir, sumir halda rétt svo lagi á meðan einn þeirra – Kormákur Bragason – á stjörnuleik með kraftmikilli og sjarmerandi rödd. Ég geri ráð fyrir að þetta sé hann þar sem hann á alla textana þar sem þessi rödd heyrist. Af einstökum lögum vil ég nefna “Dauður í Moskvu”, “Karnival í Köben” og “Skipið er að sökkva” og textinn í “Sjómannavísa kvótakóngsins” er þá bráðskemmtilegur. Látlaus spilagleðin er helsti styrkleikur þessa hljómdisks og það er vissulega eitthvað heillandi við það að hlýða á heilan frændgarð leika saman af hjartans lyst – tengda saman ekki bara af ást til tónlistarinnar heldur og í gegnum blóðið. Víst eru engin tónlistarleg þrekvirki unnin hér enda það langt í frá ætlunin. Komi menn því að disknum með fölskvalausa gleði í hjartanu munu þeir vel njóta, í góðum félagsskap frændanna frá Syðri-Á.
Arnar Eggert Thoroddsen