Söngkvöldafélagið gaf út
SRB CD 005 2010
Um jólin
Loks rættist gamall draumur. Við höfðum rætt um það árum saman að við þyrftum að koma út jólaplötu. Nokkur frumsamin jólalög voru raunar þegar til – það elsta hét “Norðanvindar næða” og varð til í brakandi sumarblíðunni sunnan undir húsvegg á Syðri-Á. Á þeim góða bæ hefur andinn oft komið yfir okkur í South River Band. Þetta lag var óvenjulegt fyrir þá sök að við áttum allir þátt í að semja það. Textinn varð hins vegar til nokkru síðar þegar Kormákur og Helgi Þór settust niður saman og bjuggu til texta um gömlu hrekkjóttu jólasveinana.
Vorið 2010 ákváðum við að setja mikinn kraft í jólaplötuna og reyna að koma henni út fyrir jólin 2010. Þetta kallaði á mikið átak, fyrst þurfti að semja lög og texta og höfundunum þótti það sérkennilegt að sitja úti á verönd í brakandi blíðu, berjandi frá sér flugur, og semja jólalög um snjókorn og nístandi snjóbylji. Allt hafðist þetta og til varð plata með 12 jólalögum. Af þeim eru 6 frumsamin en 6 eru sígild jólalög sem hafa verið í uppáhaldi hjá South River Band.
Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins sagði í blaðagrein að tónlistin væri þjóðlagatónlist þar sem öllu ægir saman; vísnatónlist, balkantöktum og ýmsu fleiru. Allt væri þetta framreitt af gáska og fagmennsku og platan væri fínasta viðbót í íslenska jólaplatnaflóru. Svo mörg voru þau orð!